Það var líf og fjör á Selfossvelli síðastliðinn laugardag þegar lokahóf yngri flokka Selfoss fór þar fram.
Að lokinni verðlaunaafhendingu var Bennavöllur vígður, en Bennavöllur er nýr pannavöllur sem staðsettur er á vallarsvæðinu við Engjaveg.
Völlurinn er gjöf frá fjölskyldu Benedikts Reynis Ásgeirssonar sem lést af slysförum árið 1988. Fjölskylda Benedikts færði knattspyrnudeildinni peningagjöf síðastliðið haust til barna- og unglingastarfs knattspyrnudeildarinnar og var ákveðið að ráðstafa upphæðinni í það að kaupa nýjan pannavöll.
Benedikt æfði knattspyrnu alla tíð og var hluti af sterkum ’71 árgangi Selfoss en auk þess var hann liðtækur sjálfboðaliði í starfi knattspyrnudeildarinnar, meðal annars í dómgæslu.
Það var vel til fundið að félagar Benna úr fótboltanum, þeir Valli Reynis og Gaui Tobba, tóku fyrsta opinbera leikinn á vellinum. Það hefur mikið verið sungið í sumar að Valli Reynis sé miklu betri en Gaui Tobba en viðureign þeirra lauk með 1-1 jafntefli og voru allir sáttir í leikslok.

