Selfoss tapaði 4-0 þegar liðið heimsótti Val í 1. umferð deildarbikarkeppni kvenna í knattspyrnu að Hlíðarenda í dag.
Valskonur gerðu út um leikinn í fyrri hálfleik þar sem þær skoruðu þrjú mörk og staðan í hálfleik því 3-0. Seinni hálfleikur var markalaus allt þar til í uppbótartímanum að Valskonur bættu fjórða markinu við.
Þetta var fyrsti leikur Selfoss í riðlinum en þriðji leikur Vals sem eru ósigraðar á toppnum. Selfoss og Valur leika í riðli-1 í A-deildinni ásamt Fylki, Breiðabliki, Tindastól og Keflavík. Næsti leikur þeirra vínrauðu er heimaleikur gegn Blikum næstkomandi föstudagskvöld.