Íslandsmeisturum Þórs frá Þorlákshöfn var sópað út úr undanúrslitum Íslandsmótsins í körfubolta í kvöld, þegar Valur kom í heimsókn í Höfnina í þriðja leik liðanna í einvíginu. Valur vann sannfærandi sigur, 65-82 og sigraði 3-0 í einvíginu.
Eins og í fyrri leikjum liðanna í seríunni fundu Þórsarar engar lausnir við frábærum varnarleik Vals. Trúin á verkefnið var fljót að þverra en Valsmenn voru frábærir í fyrri hálfleik og leiddu 28-54 í hálfleik.
Þórsarar fundu taktinn í örskamma stund í seinni hálfleiknum en það dugði ekki til, Valsmenn vörðu forskot sitt af krafti og fögnuðu góðum sigri í lokin. Valur mætir Njarðvík eða Tindastóli í úrlitum Íslandsmótsins en Þórsarar eru komnir í sumarfrí.
Daniel Mortensen var sá eini sem lét eitthvað að sér kveða í kvöld í liði Þórs og var nálægt þrefaldri tvennu; skoraði 15 stig, tók 11 fráköst og sendi 7 stoðsendingar.
Tölfræði Þórs: Daniel Mortensen 15/11 fráköst/7 stoðsendingar, Tómas Valur Þrastarson 13, Glynn Watson 10/4 fráköst/6 stoðsendingar, Ronaldas Rutkauskas 9/7 fráköst, Emil Karel Einarsson 5, Luciano Massarelli 5, Ragnar Örn Bragason 3, Davíð Arnar Ágústsson 3/6 fráköst, Kyle Johnson 2.