Ragnarsmótið í handbolta hófst í kvöld í íþróttahúsi Vallarskóla á Selfossi með tveimur kvennaleikjum. Selfoss tapaði fyrir Val, 19-23.
Staðan í leikhléi var 7-12, Val í vil. Selfyssingar hresstust í síðari hálfleik en náðu ekki að vinna niður forskot Valsliðsins.
Hulda Dís Þrastardóttir og Perla Ruth Albertsdóttir voru markahæstar Selfyssinga með 4 mörk, Elva Rún Óskarsdóttir, Harpa Sólveig Brynjarsdóttir, Katla María Magnúsdóttir og Katrín Erla Kjartansdóttir skoruðu allar 2 mörk og þær Sólveig Erla Oddsdóttir, Arna Einarsdóttir og Agnes Sigurðardóttir skoruðu allar 1 mark.
Hjá Val var Kristín Guðmundsdóttir markahæst með 7 mörk.
Í hinum leik kvöldsins sigraði Fram ÍBV 36-34. Sandra Erlingsdóttir var markahæst hjá ÍBV með 11 mörk og þær Þórey Rósa Stefánsdóttir og Karen Knútsdóttir skoruðu báðar 10 mörk fyrir Fram.
Mótið heldur áfram á morgun með leikjum Vals og ÍBV kl. 18:30 og síðan eigast Fram og Selfoss við kl. 20:15. Allir leikir Ragnarsmótsins eru sýndir beint á SelfossTV.