Selfyssingar töpuðu 2-1 fyrir lærisveinum Gunnlaugs Jónssonar í Val þegar liðin mættust að Hlíðarenda í kvöld.
Guðmundur Benediktsson þurfti að gera tvær breytingar á byrjunarliði sínu frá síðasta deildarleik þar sem Sævar Þór Gíslason og Ingólfur Þórarinsson eru meiddir. Ingi Rafn Ingibergsson og Davíð Birgisson komu inn í byrjunarliðið.
Fyrri hálfleikur: Selfyssingar voru frískari framan af og héldu boltanum ágætlega án þess að skapa færi. Valsmenn hertu síðan tökin á leiknum og á 22. mínútu fengu þeir tvö færi í röð en Jóhann Ólafur varði á ótrúlegan hátt áður en boltinn fór framhjá. Valsmenn tóku öll völd á vellinum næsta korterið og fengu tvö góð færi en Selfyssingar hefðu sömuleiðis getað brotið ísinn. Jón Daði Böðvarsson átti hættulegan skalla rétt framhjá og Kjartan Sturluson varði síðan vel útfærða aukaspyrnu frá Jóni Guðbrandssyni.
Seinni hálfleikur: Ingþór Guðmundsson kom inná í síðari hálfleik í stað Guðmundar Þórarinssonar. Glókollurinn var ekki lengi að minna á sig því hann pikkaði upp frábæra stungusendingu Jóns Daða Böðvarssonar inni á vítateignum og sendi fyrir. Þar var Davíð Birgisson á auðum sjó og hamraði boltann upp í þaknetið. 0-1, aðeins fimmtán sekúndum eftir að flautað var til síðari hálfleiks. Ian Jeffs jafnaði fyrir Valsmenn strax í næstu sókn eftir langt innkast og kæruleysi í vörn Selfoss.
Þrátt fyrir ágæta tilburði úti á vellinum gekk liðunum ekkert að skapa færi fyrr en á 78. mínútu að Guðmundur Hafsteinsson fékk boltann á auðum sjó og skallaði boltann auðveldlega í netið. Valsmenn héldu eftir þetta og Selfoss fékk ekki færi, fyrir utan hálffæri eftir föst leikatriði í kringum vítateig Vals. Viðar Kjartansson kom inná á 90. mínútu ásamt Einari Antonssyni og eru þetta fyrstu mínútur Viðars í níu mánuði en hann er að koma til baka eftir meiðsli. Guðmundur Selfossþjálfari tók báða bakverðina útaf í þessari skiptingu en þrátt fyrir aukinn sóknarþunga fengu Selfyssingar engin færi.
Byrjunarlið Selfoss: Jóhann Ólafur Sigurðsson (M), Sigurður Eyberg Guðlaugsson (Einar Ottó Antonsson +90), Arilíus Marteinsson, Agnar Bragi Magnússon, Andri Freyr Björnsson (Viðar Örn Kjartansson +90), Davíð Birgisson, Guðmundur Þórarinsson (Ingþór Guðmundsson +46), Stefán Ragnar Guðlaugsson (F), Ingi Rafn Ingibergsson, Jón Daði Böðvarsson, Jón Guðbrandsson.
Byrjunarlið Vals: Kjartan Sturluson (M), Reynir Leósson, Atli S. Þórarinsson (F), Greg Ross, Sigurbjörn Hreiðarsson, Baldur Aðalsteinsson, Rúnar Már Sigurjónsson, Arnar Sveinn Geirsson, Ian Jeffs, Haukur Páll Sigurðsson, Danni König.