Valur stakk af í lokin

Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari Selfoss, les sínum mönnum pistilinn. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss og Valur mættust í fyrsta leiknum í undanúrslitum Íslandsmótsins í handbolta að Hlíðarenda í kvöld. Valsmenn unnu sannfærandi sigur, 36-25.

Selfoss komst í 1-4 í upphafi leiks en Valur jafnaði 5-5 og hafði undirtökin eftir það. Staðan í hálfleik var 16-14. Valur hafði frumkvæðið á upphafsmínútum seinni hálfleiks en á síðustu fimmtán mínútunum fór bilið á milli liðanna heldur betur að aukast og að lokum vann Valur ellefu marka sigur.

Liðin mætast næst á Selfossi á fimmtudagskvöld en það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki kemst í úrslitaeinvígið, gegn ÍBV eða Haukum.

Atli Ævar Ingólfsson var markahæstur Selfyssinga með 6 mörk úr 6 skotum, Richard Sæþór Sigurðsson skoraði 5, Karolis Stropus 4, Hergeir Grímsson 3/1, Árni Steinn Steinþórsson 3, Alexander Egan 2 og þeir Guðmundur Hólmar Helgason og Ragnar Jóhannsson skoruðu eitt mark hvor.

Vilius Rasimas varði 13/1 skot í marki Selfoss og var með 26% markvörslu. Guðmundur Hólmar var atkvæðamestur í vörninni með 8 brotin fríköst og Sverrir Pálsson var með 5.

Fyrri grein„Þetta er mikil gleðistund“
Næsta greinHamar varði Íslandsmeistaratitilinn