Selfoss bíður enn eftir sínum fyrsta sigri í Olísdeild kvenna í handbolta en í kvöld tapaði liðið fyrir Val á útivelli, 24-19.
Valur hafði frumkvæðið í fyrri hálfleik og leiddi 9-7 í leikhléi. Selfoss náði að jafna 12-12 þegar tæpar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik en í kjölfarið kom góður kafli hjá Valskonum sem skoruðu fimm mörk í röð og þegar tólf mínútur voru eftir af leiknum var staðan orðin 19-14. Valur náði mest sjö marka forskoti en Selfoss skoraði síðustu tvö mörkin í leiknum og lokatölur urðu 24-19.
Perla Ruth Albertsdóttir var markahæst Selfyssinga með 6 mörk. Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir skoraði 4, Harpa Sólveig Brynjarsdóttir 4/1 og þær Sara Sörensen, Rakel Guðjónsdóttir, Carmen Palamariu, Ída Bjarklind Magnúsdóttir og Katla Björg Ómarsdóttir skoruðu allar 1 mark.
Katrín Ósk Magnúsdóttir varði 11 skot í marki Selfoss.
Selfoss er í neðsta sæti Olísdeildarinnar með 1 stig þegar fimm umferðum er lokið.