Valur vann Ragnarsmótið – Perla Ruth best

Perla Ruth Albertsdóttir var markahæsti og besti leikmaður Ragnarsmótsins. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Valskonur sigruðu á Ragnarsmóti kvenna í handbolta sem lauk á Selfossi í kvöld. Valur vann alla leiki sína á mótinu og lagði Aftureldingu í kvöld, 32-23.

Selfoss mætti Stjörnunni og þar var allt í járnum þar til á síðasta korterinu að Stjarnan stakk af. Staðan í hálfleik var 12-13 og þegar fimmtán mínútur voru eftir leiddi Stjarnan 23-24. Þær náðu í kjölfarið sjö marka forskoti en lokatölur urðu 28-33.

Perla Ruth Albertsdóttir var markahæst Selfyssinga með 12 mörk, Katla María Magnúsdóttir skoraði 8, Hulda Hrönn Bragadóttir 3, Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir 2 og þær Adela Eyrún Jóhannsdóttir, Arna Kristín Einarsdóttir og Rakel Guðjónsdóttir skoruðu allar 1 mark. Áslaug Ýr Bragadóttir varði 5 skot í marki Selfoss og Cornelia Hermansson 4.

Í lok móts voru afhent einstaklingsverðlaun. Perla Ruth var markadrottning mótsins með 31 mark og var valin besti leikmaður mótsins. Valsarar tóku önnur verðlaun; Sara Sif Helgadóttir var markmaður mótsins, Mariam Eradze varnarmaður mótsins og Elín Rósa Magnúsdóttir besti sóknarmaðurinn.

Fyrri greinSkorað á orkufyrirtækin að flytja höfuðstöðvarnar á Suðurland
Næsta greinÁrborg fór illa með Uppsveitir – Hamar tapaði