Ingólfur Þórarinsson braut ísinn fyrir Selfyssinga gegn KR í kvöld og kom þeim í 1-0 með marki úr vítaspyrnu. „Ég gat ekki látið litla bróður fara að klúðra þessu,“ sagði Ingólfur eftir leik.
„Við mættum fáránlega einbeittir í leikinn og pældum ekkert í því hvort við myndum vinna eða tapa. Við bara mættum og gerðum okkar allra besta, enda unnum við leikinn bæði innan vallar og utan. Þetta er algjörlega brjálað, það er bara eins og maður hafi orðið meistari – fögnuðurinn var slíkur,“ sagði Ingólfur í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
Selfyssingar byrjuðu betur og Ingólfur segir að það sem lagt hafi verið upp með hafi gengið eftir. „Þetta spilaðist voðalega þægilega fyrir okkur eftir að við urðum manni fleiri. Við urðum aðeins værukærir í lokin og ég veit ekki með þetta rauða spjald hjá Braga, mér fannst það alveg á mörkunum en auðvitað varð þetta erfiðara fyrir okkur eftir það. Við lögðum upp með að bíða aftarlega og nota hraðann hjá Sævari fram á við. Við þurftum að vera sniðugir þegar við unnum boltann og það var akkúrat þannig sem bæði mörkin okkar komu. Það hentar okkur vel að spila svona.“
Selfyssingar voru tvístígandi þegar vítaspyrnan var dæmd og lengi vel virtist enginn ætla að taka þessa mikilvægu spyrnu. „Ég sá bara að Gummi bróðir var kominn með boltann í hendurnar og það var bara ekki að ganga fyrir mig. Ég gat ekki tekið sénsinn á að litli bróðir myndi klúðra vítinu þannig að ég varð bara að vera stóri bróðir og taka ábyrgðina. Þetta var nú ekki fallegasta víti í heimi en það fór inn,“ sagði Ingólfur sem renndi boltanum með jörðinni í hægra hornið.