Dagný Brynjarsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, er bjartsýn á að vera búin að fá bót meina sinna eftir talsverða fjarveru vegna meiðsla og vonast til að taka þátt í öðrum leik Portland Thorns í bandarísku atvinnudeildinni.
Morgunblaðið greinir frá þessu.
Dagný hefur glímt við meiðsli í liðböndum við mjaðmagrindina og spjaldhrygginn og það hefur tekið talsverðan tíma. Undirbúningstímabilið fór því nánast í súginn hjá henni. Dagný mætti til leiks með íslenska landsliðinu í Algarve-bikarnum í byrjun mars en gat aðeins tekið þátt í einum leik af fjórum, gegn Japan, og spilaði þá sinn 70. landsleik. Hún var ekki með í vináttuleikjunum í Slóvakíu og Hollandi á dögunum.
„Ég hef fengið fjögur plön síðan ég meiddist en engin þeirra hafa gengið upp og ég hef alltaf orðið fyrir jafnmiklum vonbrigðum. Nú reyni ég að taka fyrir einn dag í einu. Ég var þrisvar greind vitlaust og það sást aldrei neitt á myndum en ég er nokkuð viss um að vera á réttu róli með þetta núna. Ég hefði líklegast getað beðið í nokkrar vikur eða mánuði í viðbót og þá hefði þetta lagast smám saman, en tímabilið hérna er að byrja og svo er stutt í EM, þannig að það hefur allt verið reynt til þess að flýta fyrir batanum,“ sagði Dagný í samtali við Morgunblaðið.