„Það var mjög gaman að spila hérna á Selfossi og allt fólk sem maður þekkir hérna í stúkunni,” sagði Ragnar Jóhannsson, markahæsti leikmaður U21 árs liðs Íslands í leiknum gegn Noregi.
„Þetta var ekki nógu gott hjá okkur í kvöld. Þetta var slakasti leikurinn okkar af þessum þremur. Við vorum mjög góðir varnarlega í fyrri hálfleik og stýrðum leiknum. Í seinni hálfleik spiluðum við enga vörn og þeir skoruðu bara hvar sem er,” sagði Ragnar í samtali við sunnlenska.is í leikslok.
„Norðmenn eru með fínt lið en við erum samt betri en þeir. Á góðum degi eigum við að vinna þá með 5-6 mörkum.”
Ragnar fann sig ágætlega í leiknum og var markahæsti leikmaður liðsins. Í Vallaskóla voru um 300 áhorfendur sem kunnu vel að meta tilþrifin hjá Ragnari.
„Það var mjög gaman að spila hérna á Selfossi og allt fólk sem maður þekkir hérna í stúkunni,” sagði Ragnar og þrætti um leið fyrir að hafa verið að glápa upp í stúku. „Nei, þetta var bara mjög skemmtilegt og ég er þokkalega ánægður með minn leik. Ég hefði reyndar getað nýtt færin betur. Ég var svolítið að kasta boltanum frá mér í sókninni og skjóta í markmanninn þeirra þannig að þetta hefði getað verið betra.”
Landsliðsmennirnir ungu fá nú nokkurra daga frí en síðan taka við æfingar milli jóla og nýárs og fram á nýja árið. „Við fljúgum út til Serbíu 6. janúar þar sem við spilum í undanriðli EM,” segir Ragnar en Ísland er með Serbíu, Makedóníu og Eistlandi í riðli.
„Serbarnir eru með sterkt lið í þessum aldursflokki en við vitum ekki mikið um hin liðin. Við þurfum samt að eiga toppleiki því það er bara eitt lið sem kemst áfram upp úr riðlinum. Þetta leggst mjög vel í mig,” sagði Ragnar sem stefnir á smáköku- og hangikjötsát næstu dagana.
„Maður verður nú að leyfa sér smá… Nei, ætli það verði ekki bara kjúklingur og eitthvað létt. Einar er að láta okkur finna vel fyrir því. Það eru hörkuæfingar hjá honum og mikil hlaup.”