Selfyssingurinn Þórir Hergeirsson, þjálfari heims-, Evrópu- og Ólympíumeistara Noregs í handbolta kvenna, mætti aftur í íþróttahúsið á Selfossi á þriðjudaginn.
Þá mætti norska liðið því íslenska í vináttulandsleik. „Það var rosalega gaman. Þetta vakti upp góðar tilfinningar,“ segir Þórir.
Hann eyddi töluverðum tíma í íþróttahúsinu áður en hann flutti til Noregs árið 1986. „Þetta byrjaði nú eiginlega í leikfimisalnum í gamla barnaskólanum. Svo kom þetta hús hérna þegar ég var 13 eða 14 ára og það var auðvitað bylting. Svo maður fékk að vera með í því að byggja upp handboltadeildina hérna á Selfossi.“
Hann segist hafa verið mikið í húsinu á sínum tíma, enda leikmaður Selfoss og þjálfari auk þess að vera að vera í stjórn deildarinnar. „Ég var stundum einum of mikið hérna, frá morgni til kvölds,“ segir Þórir og brosir.
Það átti því vel við að þessi æfingaleikur yrði leikinn á Selfossi. „Ég vonaði að hann yrði hér. Það var á tímabili spurning hvort það yrði Ísafjörður eða Selfoss. Ég hefði gjarnan farið til Ísafjarðar en það passaði vel fyrir mig að spila leikinn hérna á Selfossi,“ segir Þórir sem var að mestu sáttur við leikinn en hans lið sigraði 31-43.
„Þetta var svolítll sýningarbolti. Lítil vörn og markvarsla, en mikil hlaup og bæði skemmtileg hraðaupphlaup og margar góðar leikfléttur í sóknum beggja liða. Það er nú sjaldan sem við sleppum inn svona mörgum mörkum. Það var ég kannski ekkert sérstaklega ánægður með,“ segir Þórir og bætir við að leikurinn hafi verið skemmtilegur fyrir þá um það bil 500 áhorfendur sem mættu á leikinn. „Mér heyrðist á fólki að það hafi verið mjög ánægt með það sem það sá.“
Náðum að brjóta þetta upp
Þórir fór mikinn á hliðarlínunni. Talaði við leikmenn sína á norsku, en dómara og aðra á íslensku. „Það var svolítið gaman, það er langt síðan síðast,“ segir Þórir aðspurður hvernig var að geta kallað á dómarana á íslensku. „Það var smá hiti í þessu. Það er gaman að hafa smá svona at á hliðarlínunni.“
Fjórtán daga æfingferð norska liðsins lýkur á mánudaginn. Áður en liðið kom á Selfoss var það á Laugarvatni og í Reykjavík. Næst á dagskrá eftir leikinn á Selfossi er Þórsmerkurferð. „Við ætlum labba Fimmvörðuháls ef veðrið verður þokkalegt. Við förum svo til Reykjavíkur og höldum áfram að æfa,“ segir Þórir sem vill leyfa leikmönnum sínum að kynnast höfuðborginni um helgina.
Þórir ætlar að vera lengur á Íslandi eftir að leikmennirnir fara heim. „Ég ætla að vera hérna í tíu daga að heimsækja fjölskylduna og njóta þess,“ segir Þórir sem er ánægður með ferðina hingað til. „Hingað til hefur þettaverið mjög gott og ég vona bara að þetta verði enn betra núna í vikunni. Við náðum að brjóta þetta aðeins upp.“
Þrátt fyrir að kunna vel við sig á Selfossi eru flutningar frá Noregi ekki á dagskrá. „Ég reyndi að fá konuna, sem er norsk, hingað áður en ég fór inn í teymið hjá landsliðinu. En hún vildi helst ekki fara til Íslands. Það var kannski veðrið sem gerði það að verkum, ég veit það ekki,“ segir Þórir og hlær. „Svo hefur það ekkert verið í umræðunni ennþá – maður veit aldrei. En það er ofsalega gott að koma hingað í heimsókn – alveg frábært.“