Veðmálinu lokið: Dóri mætti með penslana!

Halldór Morthens, málari á Selfossi, veðjaði við Sævar Þór Gíslason, knattspyrnumann, sumarið 2007. Ef Sævar næði að skora 20 mörk í 2. deildinni myndi Halldór mála hús Sævars frítt.

Sævar tók Halldór auðvitað á orðinu og raðaði inn mörkum þetta sumar, þegar Selfyssingar fóru upp úr 2. deildinni eftir langa bið. Fyrir síðasta leik var Sævar kominn í 17 mörk og Halldór hafði litlar áhyggjur af veðmálinu þar sem hann slakaði á á sólarströnd á meðan Selfoss lék gegn Magna í fimbulkulda á Grenivík í lokaumferðinni.

Sævar gerði sér lítið fyrir og skoraði þrennu í leiknum þrátt fyrir ítrekuð tilmæli frá Halldóri í gegnum SMS að Sævar yrði tekinn útaf. Mörkin urðu því tuttugu á endanum og Sævar fagnaði því síðasta með „málningarrúllufagni“.

Svo leið og beið og ekkert bólaði á Halldóri með penslana, fyrr en nú að Sævar og fjölskylda fluttu í nýtt hús á Selfossi. Halldór mætti þá með rúlluna á lofti og stóð við sinn hluta af veðmálinu.

„Auðvitað kom ekkert annað til greina en að standa við veðmálið,“ segir Halldór, léttur í bragði. „Það sýndi sig þarna að strákar eins og Sævar þurfa aukalega hvatningu til þess að þeir leggi sig fram – einhverja gulrót. Það vildi enginn veðja við hann í sumar, enda skoraði hann bara fimm mörk í Pepsi-deildinni, sem er frekar lélegt.“

Fyrri greinGöngumanni bjargað á Ölkelduhálsi
Næsta greinVopnað rán á Selfossi