Hjólreiðakeppnin KIA gullhringurinn fer fram á Selfossi næstkomandi laugardag. Í ár er KIA gullhringurinn ekki eingöngu keppni á milli hjólreiðafólks heldur geta íbúar í Árborg og Flóahreppi tekið þátt í annarri og enn skemmtilegri keppni!
Sveitabæir, vinahópar eða nágrannar geta skráð sig í keppni þeirra sem vilja sýna mestu gestrisnina og hvatninguna. Þeir sem vilja taka þátt í þessari keppni geta skráð sig til leiks á info@vikingamot.is. Við skráum bæinn eða hópinn til leiks og staðsetningin/keppnistöðin fær keppnisnúmer.
Brúsapallagleði
Til þess að gera umhverfið og stemmninguna í kringum keppnina enn skemmtilegri verða veitt þrjú verðlaun fyrir „bestu“ hvatningarstöðvarnar. Hvatningarstöðvarnar hafa fengið nafnið Brúsapalla-gleði sem á vel við í Flóanum, heimasveit Bjössa á mjólkurbílnum! Skráðir keppendur í Brúsapalla-gleðinni fá send til sín veisluföng daginn fyrir keppni. Þessi veisluföng koma frá samstarfsaðilum keppninnar ( á meðan birgðir endast ) en þar verður að finna drykkjarföng og annað fjörefnafóður, auk þess sem veifur og kúabjöllur verða með í pakkanum.
Frjáls aðferð verður í þessari keppni en leiðarvísir dómara verður leikgleði og jákvæðni byggð á gestrisni og góðum siðum Flóamanna. Í fyrstu verðlaun verður gasgrill að verðmæti 150.000 kr. frá BYKO.