Frábærlega heppnuð uppskeruhátíð Hestamannafélagsins Geysis fór fram síðastliðinn laugardag þar sem margt var um manninn. Veitt voru ýmis verðlaun fyrir góðan árangur og félagsstörf.
Margar viðurkenningar voru veittar ásamt farandbikurum. Þeir Geysisfélagar sem komust í A-úrslit á LM 2014 fengu ostakörfu. Það voru Steingrímur Sigurðsson og Gróði frá Naustum, Sigurður Sigurðarson og Dreyri frá Hjaltastöðum, Róbert Bergmann og Brynja frá Bakkakoti, Guðmunda Ellen Sigurðardóttir og Tindur frá Heiði og Sigurlín F Arnarsdóttir og Reykur frá Herríðarhóli.
Valsteinn Stefánsson og Birgir Ægir Kristjánsson fengu viðurkenningu fyrir góð störf fyrir félagið.
Herríðarhóll fékk viðurkenningarplatta fyrir Storm frá Herríðarhóli sem er þrefaldur Íslandsmeistari í tölti og vann einnig tölt á LM 2014. Eigendur Orku frá Hvolsvelli fengu einnig viðurkenningarplatta en Orka á tíu sýnd afkvæmi og átta af þeim eru í 1. verðlaunum. Þá fékk Róbert Bergmann viðurkenningarplatta en hann varð Íslandsmeistari í tölti ungmenna 2014.
Knapi ársins var valinn Daníel Jónsson, Davíð Jónsson fékk Skeiðskálina og Sigurður Sigurðarson íþróttabikarinn. Gæðingaknapinn Steingrímur Sigurðsson fékk Geysisbikarinn, stóðhestabikarinn kom í hlut Aríons frá Eystra-Fróðholti og hryssubikarinn fékk Blíða frá Litlu-Tungu. Fet var valið ræktunarbú ársins og Sigurður Sigurðarson og Dreyri frá Hjaltastöðum fóru heim með Mjölnisbikarinn.
Ágúst Sigurðson var veislustjóri og hlaðborðið var hrossakjöt af öllum sortum að hætti Hellisbúans. Hljómsveitin SóFar spilaði fyrir dansi. Mikil gleði var og stóð dansleikurinn langt fram á nótt.