Kvennalið Hamars vann góðan sigur á KR í Iceland Express-deildinni í körfubolta í dag. Leikurinn var æsispennandi en lokatölur voru 69-72.
Fyrsti leikhlutinn var jafn en KR lauk honum með 7-2 spretti og leiddi 23-19 þegar tíu mínútur voru liðnar af leiknum. KR jók forskot sitt í tíu stig í upphafi 2. leikhluta, 31-21, en Hamar náði að minnka muninn aftur í tvö stig 37-35. Staðan var 40-35 í hálfleik.
KR jók aftur muninn í 11 stig í upphafi 3. leikhluta en Hamar skoraði níu stig í röð undir lok leikhlutans og staðan að honum loknum var 54-53.
Hamar byrjaði vel í síðasta fjórðungnum og komst í 59-63 en þá komu átta stig í röð frá KR. Þegar rúmlega tvær og hálf mínúta var eftir af leiknum negldi Fanney Guðmundsdóttir niður þrist og kom Hamri yfir, 67-68. Hamar náði boltanum aftur og Katherine Graham laumaði boltanum ofaní með sniðskoti.
KR átti engin svör á lokakaflanum og Hamar kláraði leikinn á vítalínunni. Fanney misnotaði að vísu vítaskot á mikilvægum tímapunkti en Álfhildur Þorsteinsdóttir náði sóknarfrákastinu og í kjölfarið fór Graham á vítalínuna þegar þrettán sekúndur voru eftir og setti niður annað vítið til að tryggja sigurinn.
Katherine Graham var best í liði Hamars með 26 stig og 12 fráköst. Samantha Murphy skoraði 22 stig og Fanney Guðmundsdóttir 9.
Hamar er í 7. sæti með 12 stig, tveimur meira en botnlið Fjölnis.