Stúlkurnar í 1. flokki Selfoss eru nú komnar heim eftir keppnisferð til Svíþjóðar um síðustu helgi, þar sem þær kepptu á Norðurlandamóti unglinga í hópfimleikum á laugardaginn.
Liðið var vel undirbúið eftir margra mánaða undirbúning en í upphitun meiddist einn liðsmaður Selfoss og gat ekki keppt. Það setti stórt strik í reikninginn en liðið sýndi þó mikla þrautseigju og þrátt fyrir þetta óhapp náðu þær að klára daginn eins vel og unnt var. Vinnan sem liðið hefur lagt á sig síðustu mánuði sást vel á þessum tímapunkti, en það hefur verið mikið unnið með samheldni, sjálfstraust og að taka það pláss sem þær eiga skilið.
Selfoss endaði í 6. sæti eftir að hafa skilað sínum æfingum vel af sér og geta verið stoltar af sér eftir þennan dag, þrátt fyrir að hann hafi ekki gengið upp nákvæmlega eins og þær sáu fyrir sér.
Það er vert að minnast á vínrauðu stúkuna en Selfoss átti fjölmarga stuðningsmenn á mótinu sem studdu liðið af miklu kappi. Selfyssingarnir studdu Ísland jafnt sem Selfoss á þessu móti og fengu mikið hrós frá foreldrum annarra íslenskra iðkenda fyrir stuðning þvert á félög.