Velgdu úrvalsdeildarliðunum undir uggum

Kennedy Aigbogun skoraði 16 stig fyrir Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss og Hamar, sem leika í 1. deildinni, eru úr leik í bikarkeppni karla í körfubolta eftir leiki kvöldsins, sem báðir voru gegn úrvalsdeildarliðum.

Á Selfossi var Höttur frá Egilsstöðum í heimsókn. Fyrsti leikhluti var jafn en í 2. leikhluta hafði Höttur frumkvæðið og staðan í hálfleik var 43-48. Gestirnir juku forskotið í 3. leikhluta en Selfyssingar voru aldrei langt undan og í lokin skildu níu stig liðin að, 83-92. Srdan Stojanovic átti fínan leik fyrir Selfoss, skoraði 21 stig og sendi 11 stoðsendingar.

Hamar heimsótti KR í Frostaskjólið. KR-ingar byrjuðu mun betur í leiknum og í upphafi 2. leikhluta var staðan orðin 31-14 eftir 1. leikhluta. Þá kviknaði loksins ljós hjá Hvergerðingum sem minnkuðu muninn í átta stig en staðan í hálfleik var 42-31. KR var skrefinu á undan í seinni hálfleik en Hamar var aldrei langt undan og lokatölur urðu 79-66. Ragnar Nathanaelsson var besti maður vallarins, hann skoraði 21 stig fyrir Hamar og tók 19 fráköst.

Tölfræði Selfoss: Srdan Stojanovic 21/5 fráköst/11 stoðsendingar, Kennedy Aigbogun 16/5 fráköst/3 varin skot, Gerald Robinson 15/7 fráköst, Ísak Júlíus Perdue 14, Arnaldur Grímsson 12/11 fráköst, Ísar Freyr Jónasson 3, Dusan Raskovic 2.

Tölfræði Hamars: Ragnar Nathanaelsson 21/19 fráköst/6 varin skot, Jose Medina 17/7 fráköst/5 stoðsendingar, Björn Ásgeir Ásgeirsson 11/5 fráköst, Haukur Davíðsson 6, Snorri Þorvaldsson 5, Daði Berg Grétarsson 3/9 fráköst, Alfonso Birgir Gomez 3/6 fráköst, Daníel Sigmar Kristjánsson 6 fráköst.

Fyrri greinLionskúbbur Selfoss og Emblurnar gefa til HSU
Næsta greinBókamessa Sæmundar á laugardaginn