„Velgengnin komin inn í kollinn á mönnum“

Benedikt Guðmundsson, þjálfari Þórs, telur velgengnina hafa stigið sínu liði til höfuðs og var ánægður með að Laugdælir kipptu þeim niður á jörðina í kvöld.

„Mig grunar að velgengni okkar hafi farið aðeins inn í kollinn á mönnum. Menn sjá það eftir þennan leik að ef þeir eru ekki með hausinn rétt skrúfaðan á þá eigum við ekki sigurinn vísan gegn neinu liði. Þetta var bara virkilega fínt upp á það að gera,“ sagði Benedikt í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Þórsarar náðu 14 stiga forskoti í upphafi leiks en áttu svo í miklum vandræðum með að verja það og sérstaklega reyndist Bjarni Bjarnason þeim erfiður. Leikurinn gjörbreyttist þegar Bjarni fór útaf með fimm villur.

„Hann var búinn að skapa okkur þvílík vandræði og það gerðist rosalega margt gott í kringum hann. Laugdælir eru með mjög skemmtilegt og mér finnst Pétur vera að gera fína hluti með þá. Það eru ekki öll liðin sem við höfum mætt í vetur svona skipulögð,“ sagði Benedikt.

Philip Perre hefur verið atkvæðamikill hjá Þórsurum í vetur en hann lék ekki með í kvöld vegna ökklameiðsla sem hann hlaut í síðasta leik gegn Val. „Það á ekki að breyta miklu þó að hann sé ekki með. Breiddin minnkar eitthvað og er svosem ekki svakaleg fyrir hjá okkur. Þó að hann hafi ekki verið með þá er það ekki ástæðan fyrir frammistöðu okkar í kvöld. Þeir sem voru inná voru bara ekki rétt stilltir.“

Fyrri grein„Mér að kenna“
Næsta greinEkki til fjármunir til að borga af lánum