Selfyssingar gengu svekktir af velli eftir leikinn gegn KA í 1. deild karla í knattspyrnu í dag. KA hafði 0-1 sigur en Selfyssingar hefðu hæglega getað fengið eitthvað út úr leiknum.
Selfyssingar voru sæmilega líflegir fyrstu tíu mínúturnar og á 7. mínútu fékk Joseph Yoffe gott færi en skaut í bakið á varnarmanni af stuttu færi.
Í fyrsta skipti sem KA komst inn í vítateig Selfoss stökk Bernard Brons upp í þvögu og braut af sér að mati dómarans. Harður dómur en að sama skapi klaufalegir tilburðir hjá Brons. KA menn fengu víti og skoruðu þar eina mark leiksins.
Eftir markið datt leikurinn algjörlega niður af beggja hálfu og ekkert var að gerast næstu tuttugu mínúturnar. Selfyssingar hresstust aðeins undir lok fyrri hálfleiks og Magnús Ingi Einarsson sýndi oft ágæta spretti á hægri kantinum en mörkin létu á sér standa.
Selfyssingar voru sterkari í síðari hálfleik en gekk illa að brjóta vörn KA á bak aftur. Þorsteinn Daníel Þorsteinsson átti skalla rétt framhjá á 53. mínútu og Bjarki Aðalsteinsson var nálægt því að stimpla sig inn með skallamarki í sinni fyrstu snertingu fyrir félagið en hann kom inná á 82. mínútu. Hinu megin á vellinum bjargaði Bernard Brons á línu eftir hamagang í vítateig Selfoss og var það nánast eina færi KA manna í leiknum.
„Ég verð að viðurkenna að ég er svekktur, ég held að við höfum átt skilið eitt stig í dag og það eru ákveðin vonbrigði að ná því ekki,“ sagði Gunnar Guðmundsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
„Við spiluðum ekki nákvæmlega þann leik sem við ætluðum okkur, við ætluðum að láta boltann fljóta meira og fórum of snemma í kýlingar fram á við þannig að ég var ekki nógu hress með það. En um leið og við fórum að láta boltann rúlla á milli manna þá fórum við að skapa okkur færi. Heilt yfir þá voru góðir punktar í þessu og mér fannst við vera óheppnir að ná ekki inn allavega einu marki,“ sagði Gunnar ennfremur.