Kvennalið Selfoss vann verðskuldaðan sigur á Val á útivelli í Pepsi-deildinni í knattspyrnu í kvöld. Lokatölur urðu 1-3 en öll mörkin voru skoruð í fyrri hálfleik.
Valsliðið var ákveðnara í upphafi leiks og þær komust yfir strax á 8. mínútu þegar Svava Rós Guðmundsdóttir skallaði boltann í netið þar sem hún var laus í teignum.
Eftir mark Vals tóku Selfyssingar sig taki og Dagný Brynjarsdóttir náði að jafna metin á 20. mínútu. Guðmunda Óladóttir átti þá hörkuskot í stöngina en Dagný náði frákastinu og skoraði af öryggi.
Valsmenn voru nálægt því að komast yfir aftur á 33. mínútu þegar Selfyssingar komust á síðustu stundu fyrir skot frá Elínu Mettu Jensen. Þremur mínútum síðar var Guðmunda hins vegar á ferðinni hinu megin á vellinum þar sem hún kom sér í færi af miklu harðfylgi og skoraði með föstu skoti úr teignum.
Selfyssingar voru ekki hættir því Blake Stockton kom liðinu í 1-3 á 38. mínútu þegar hún skoraði úr vítateignum eftir aukaspyrnu frá Ernu Guðjónsdóttur.
Staðan var 1-3 í hálfleik og síðari hálfleikur var lengst af rólegur, bæði lið fengu hálffæri en Selfyssingar voru þéttir á miðju og í vörn og náðu að sigla heim sanngjörnum sigri.
Selfoss hefur nú 16 stig í 5. sæti deildarinnar og er einu stigi á eftir Þór/KA sem er í 2. sætinu.