„Bæjarfélög þurfa að vera dugleg að styrkja íþróttir eldri borgara. Það er nauðsynlegt í öllum bæjarfélögum,“ segir Jóna Einarsdóttir, íbúi í Hveragerði og einn af elstu þátttakendunum á æfingum eldri borgara í Hamarsport hjá Íþróttafélaginu Hamri.
Jóna hefur lengi tekið þátt í íþróttastarfi eldri borgara í Hveragerði. Hún vann á árum áður á Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands og stofnaði þar gönguhóp, sem enn er á gangi og heldur úti gönguferðum í hverri viku. Hún segir einkunnarorð NLFÍ til fyrirmyndar.
„Þar lærði ég að fólk á að taka ábyrgð á eigin heilsu. Ef maður nennir ekki að hugsa um hana sjálfur gerir enginn það fyrir mann,“ segir hún og rifjar upp að íþróttaæfingar fyrir fólk 60 ára og eldra hafi byrjað í Hveragerði þegar íþróttafræðingurinn Jónína Benediktsdóttir flutti í bæinn fyrir tæpum tíu árum, en hún spann saman heilsueflingu í samstarfi Félags eldri borgara í Hveragerði og Hveragerðisbæ í Hamarshöllinni. Æft var tvisvar í viku. Jónína lést fyrir aldur fram árið 2020 og Hamarshöllin fauk af grunni sínum tveimur árum síðar.
Jóna segir verðmætt að boðið sé upp á heilsueflingu eldri borgara í Hveragerði og ætti slíkt að vera í boði sem víðast.
„Það er nauðsynlegt að bjóða heilsueflingu eldri fólks í öllum bæjarfélögum. Ef það er ekki í boði þarf að gera það og virkja fólkið til þátttöku,“ segir Jóna.
Fjallað er um íþróttafélagið Hamar í nýjasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ og rætt þar við Guðjónu Björk Sigurðardóttur, framkvæmdastjóra Hamars.
„Hamar hefur verulega vantað húsnæði upp á síðkastið og hefur í raun síðastliðin tvö ár verið í vandræðum eftir að Hamarshöllin fauk. Ekkert bólar enn á nýju húsnæði,“ segir Guðjóna og bendir á að félagið hafi lengi haft áhuga á að stækka hlut almenningsíþrótta undir merkjum félagsins.
Þegar eigendur Crossfit Hengils tóku þá ákvörðun að hætta rekstri um síðustu áramót varð til hugmynd hjá Hamri um að nýta húsnæðið, sem er í eigu Hveragerðisbæjar, og kaupa búnaðinn af Crossfit Hengli.
„Okkur fannst þetta verulega gott tækifæri, sem myndi gera okkur kleift að bjóða upp á almenna líkamsrækt fyrir iðkendur í Hveragerði, fyrir mömmur, unglinga og nú síðast eldri borgara, sem hafa bæst í hópinn,“ segir Guðjóna.
Starfsemin í Hamarsporti og stofnun almennrar deildar hefur gengið mjög vel þessa fyrstu mánuði ársins að sögn Guðjónu.
„Um 120 iðkendur hafa verið í líkamsræktinni ásamt iðkendum í Mömmusporti og Unglingasporti. Deildir Hamars eru byrjaðar að nýta sér salinn, til dæmis knattspyrnan, blakið, körfuboltinn og ný lyftingadeild innan Hamars sem er byrjuð að bjóða upp á lyftingar þrisvar sinnum í viku. Einnig hafa afreksmenn nýtt sér aðstöðuna,“ segir Guðjóna. Nýverið hafa eldri borgarar slegist í hópinn hjá Hamri og mætt á skipulagðar æfingar þrisvar í viku í Hamarsport.
„Áður fyrr hafa eldri borgarar í Hveragerði verið á hálfgerðum hrakhólum vegna aðstöðuleysis en vonandi eru þeir komnir á góðan stað þar til nýtt íþróttahús kemur. Það er því óhætt að segja að mikið líf sé í húsinu,“ bætir Guðjóna við.
Rakel Hlynsdóttir, þjálfari í Hamarsporti, hefur haldið utan um líkamsræktina fyrir eldri borgarana, en áður voru þeir undir leiðsögn Berglindar Elíasdóttur.
„Rakel er algjör snillingur og á auðvelt með að vinna með þessum hópi. Hún setur upp æfingar fyrir þau og það er mikið að gerast í hverjum tíma. Það eru meðal annars notuð hjól, róðrarvélar, skokk, lóð og eigin líkamsþyngd,“ segir Guðjóna og bætir við að eldri borgararnir séu mikilvægur hluti af iðkendum Hamars, en æfingarnar hafi gefist mjög vel og það sé alltaf glatt á hjalla í þessum hópi.