Það voru heldur betur óvænt úrslit í Olísdeild karla í dag þegar Selfyssingar, sem sátu á toppnum, töpuðu fyrir botnliði Akureyrar í Hleðsluhöllinni á Selfossi, 28-34.
„Það var eiginlega ekkert í gangi í dag, ef ég á að segja eins og er. Þetta er ein slakasta frammistaða okkar í eitt, tvö ár. Mjög dapurt og hrikalega svekkjandi að fara með þetta inn í jólafríið. Það er eiginlega ekki hægt að segja neitt meira um það,“ sagði Einar Sverrisson, leikmaður Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
„Ég held að við gætum allir fundið eitthvað smá væl, en við eigum að geta pínt okkur áfram í sextíu mínútur – í einn leik, og gert það almennilega. Það kom smá kafli í seinni hálfleik þar sem var einhver neisti í okkur, en eftir það var þetta bitlaust og það fór allt að klikka aftur. Það er sama hvar þú lítur á liðið, það klikkaði alltsaman. Við tökum ekkert af Akureyringunum samt, en þetta er einkar súrt og verður í hausnum á okkur yfir jólin,“ sagði Einar ennfremur.
Kraftur í gestunum allan tímann
Akureyringar byrjuðu leikinn af krafti og náðu fljótlega ágætu forskoti á meðan ekkert gekk upp hjá Selfyssingum. Staðan í hálfleik var 13-19.
Selfyssingar fóru vel yfir hlutina í hálfleik og það skilaði þeim góðum upphafskafla í seinni hálfleik. Heimamenn náðu að minnka muninn í tvö mörk, 19-21, eftir að hafa skorað fimm mörk í röð á fyrstu tíu mínútunum.
En Akureyringar hleyptu Selfyssingum ekki nær og svöruðu sjálfir með fimm marka kafla. Þar með má segja að leikurinn hafi verið búinn en Selfossliðið var ekki líklegt til afreka á lokakaflanum.
Guðjón og Einar markahæstir
Guðjón Baldur Ómarsson skoraði 5 mörk fyrir Selfoss og Einar Sverrisson 5/2. Árni Steinn Steinþórsson skoraði 4, Elvar Örn Jónsson 4/2 og þeir Hergeir Grímsson, Atli Ævar Ingólfsson og Haukur Þrastarson skoruðu allir 3 mörk. Hannes Höskuldsson skoraði 1.
Pawel Kiepulski varði 8 skot í marki Selfoss, flest á lokakaflanum þegar úrslitin voru ráðin. Hann var með 34% markvörslu en Sölvi Ólafsson, sem byrjaði leikinn var með 4 skot varin og 17% markvörslu.
Með tapinu missti Selfoss toppsætið í hendur Hauka og Valsmenn geta komist á toppinn í kvöld eftir leikinn gegn Gróttu. Akureyri lyfti sér upp úr fallsæti í dag.