Síðasta Grýlupottahlaupið á Selfossi þetta vorið var haldið í morgun. Meðal keppenda voru Vésteinn Hafsteinsson og Kári Jónsson.
Í viðtali á sunnlenska.is í gær var Vésteinn spurður að því hvort að hann ætlaði að hlaupa í Grýlupottahlaupinu, en Vésteinn er staddur hér á landi vegna Selfoss Classic mótsins sem haldið er í dag.
„Ef Kári Jóns mætir, þá joggum við saman,“ sagði Vésteinn léttur í viðtalinu og auðvitað skoraðist Kári Jónsson ekki undan því! Þeir mættu til leiks í morgun með Björn Gíslason rakara sér við hlið og tókust á við Grýluna. Það var ekki annað að sjá en létt væri yfir þeim félögum sem leiddust í gegnum endamarkið í lokin.
Vésteinn og Kári kepptu í fyrsta Grýlupottahlaupinu sem haldið var árið 1969 og alveg eins og þá var Guðmundur Kr. Jónsson ræsir í hlaupinu í dag.