Vésteinn Hafsteinsson var sæmdur gullmerki Ungmennafélags Selfoss á milli jóla og nýárs. Vésteinn hefur fylgt félaginu undanfarna áratugi, fyrst sem iðkandi, þjálfari og fyrirmynd íþróttafólks og síðar sem ráðgjafi og lærifaðir þjálfara hjá félaginu.
Á Facebooksíðu Selfoss er sagt frá afhendingu gullmerkisins en það er ekki heiglum hent að klófesta Véstein, sem búsettur er í Svíþjóð og alltaf með mörg járn í eldinum.
„Það var því afar ánægjulegt að ná loksins að króa hann af heima hjá Þorvaldi bróður hans milli hátíða. Viktor S. Pálsson, formaður Umf. Selfoss, fékk þann heiður að næla gullmerki Umf. Selfoss í barm Vésteins og þakka honum þannig fyrir ævilangt framlag sitt til ungmennafélagsins en við vitum jafnframt að hann er hvergi nærri hættur að miðla af reynslu sinni til iðkenda og þjálfara á Selfossi,“ segir í fréttinni.