Vésteinn þjálfari ársins í Svíþjóð

Vésteinn og Daniel Ståhl. Ljósmynd/Úr safni Vésteins

Selfyssingurinn Vésteinn Hafsteinsson var útnefndur þjálfari ársins í Svíþjóð en hin árlega hátíð Idrottsgalan var haldin í kvöld í Avicii Arena í Stokkhólmi.

Lærisveinar Vésteins náðu frábærum árangri á árinu 2021 en hápunkturinn var á Ólympíuleikunum í Tókýó í sumar þar sem Svíar unnu tvöfalt í kringlukasti. Daniel Ståhl vann gullið og Simon Petterson silfrið en Vésteinn þjálfar þá báða.

Í þakkarræðu sinni á hátíðinni sagði Vésteinn vera hrærður yfir því að fá þessi verðlaun, sem væru stór fyrir honum. Þess má geta að Vésteinn var annar í vali íslenskra íþróttafréttamanna sem þjálfari ársins, en þar fór Þórir Hergeirsson heim með verðlaunin. Þórir er einnig tilnefndur sem þjálfari ársins í Noregi.

Fyrri greinHandtekinn eftir að hnefarnir töluðu
Næsta greinHugleiðingar á nýju ári