Selfoss og Grindavík skildu jöfn, 1-1, í Pepsideild kvenna í knattspyrnu á Selfossvelli í kvöld í kaflaskiptum leik.
„Frábær fyrri hálfleikur, ekki mjög góður seinni hálfleikur,“ sagði Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss, aðspurður um sitt mat á leiknum. „Þetta var kaflaskipt. Þær áttu seinni hálfleikinn en voru samt ekki að skapa mikið. Við fáum á okkur aulamark uppúr innkasti og það er bara eins og það er.“
„Við vorum búnar að einblína á að byrja vel. Það hefur verið okkar Akkilesarhæll í sumar. Við ætluðum að halda sama krafti í seinni hálfleiknum en það gekk ekki nógu vel. En við höldum bara áfram. Markmiðin okkar eru skýr. Það er að gefa ungu stelpunum mínútur og halda sæti okkar í Pepsí. Við elskum Pepsí,“ sagði Alfreð ennfremur.
Selfyssingar voru mun sterkari í fyrri hálfleik en fóru illa með marktækifærin. Það var ekki fyrr en á 36. mínútu að Allyson Haran kom boltanum í netið eftir aukaspyrnu Hrafnhildar Hauksdóttur.
Staðan var 1-0 í hálfleik og færanýting Selfyssinga átti eftir að koma í bakið á þeim því að Grindvíkingar voru miklu sterkari í seinni hálfleik. Jöfnunarmarkið lá í loftinu og það leit dagsins ljós þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum.
Selfoss er nú í 5. sæti deildarinnar með 16 stig en Grindavík er áfram í fallsæti, 9. sætinu, með 10 stig.