Eftir góðan sigur í síðustu umferð voru Selfyssingar slegnir niður á jörðina þegar Fram kom í heimsókn á JÁVERK-völlinn í Inkasso-deild karla í knattspyrnu í kvöld.
„Við erum allir ósáttir eftir þetta tap. Þetta var bara svekkelsi. Við spiluðum mjög vel í fyrri hálfleik, héldum boltanum vel og gerðum það sem við ætluðum að gera en svo fáum við eitt skítamark á okkur úr hálffæri. Við hefðum getað skorað tvö mörk í fyrri hálfleik en það klikkaði,“ sagði Þorsteinn Daníel Þorsteinsson, leikmaður Selfoss, í samtali við fotbolti.net eftir leik.
Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik og liðin skiptust á að sækja. Framarar voru sprækari fram á við og náðu að komast yfir með ódýru marki á 34. mínútu. Staðan 0-1 í hálfleik.
Gestirnir stjórnuðu umferðinni lengst af síðari hálfleik og tvöfölduðu forskotið á 54. mínútu. Staðan var svo orðin 0-3 á 79. mínútu og héldu þá flestir að leik væri lokið.
Varamaðurinn Gilles Ondo var ekki á sama máli og minnkaði muninn í 1-3 rúmri mínútu síðar með laglegu skallamarki. Selfyssingar sóttu stíft síðustu tíu mínúturnar en tókst ekki að koma boltanum aftur í netið hjá Fram.
Selfyssingar eru í 9. sæti deildarinnar með 11 stig en þar fyrir neðan eru Njarðvík og ÍR með 10 stig og bæði lið eiga leik til góða. Magni er svo í botnsætinu með 6 stig.