„Við fengum það sem við áttum skilið“

Benedikt Guðmundsson, þjálfari Þórs í Þorlákshöfn, var ómyrkur í máli eftir tapið gegn Njarðvík í kvöld þar sem Þórsarar köstuðu frá sér sigrinum undir lokin. Njarðvík sigraði 82-84 í framlengingu.

„Mér fannst við vera flottir fram í miðjan þriðja leikhluta. Svo klikkum við úr layupi og tveimur vítum og þá var ég ansi hræddur um að við værum búnir að missa taktinn. Það var líka raunin, við gátum ekki keypt körfu það sem eftir var þó að þær væru fríar,“ sagði Benedikt hundsvekktur í samtali við sunnlenska.is eftir leik. „Við vorum í dauðafæri til að klára leikinn en höfðum ekki það sem þurfti til að ganga frá honum á þeim tímapunkti og fengum bara það sem við áttum skilið.“

Þórsarar hittu ekkert undir lokin og Benedikt segir að þegar upp var staðið hafi úrslitin verið sanngjörn.

„Við klikkuðum á einhverjum tólf vítum síðustu fimmtán mínúturnar, við setjum ekki niður opin skot, við fengum layup til að klára leikinn en það gekk ekki neitt. Þetta eru bara úrslit sem eru sanngjörn. Ef að lið reyna að tapa, eins og við gerðum í kvöld þá eiga þau bara skilið að tapa.“

Benedikt fór vel yfir málin með sínum mönnum inni í klefa eftir leik en segist þó hafa sleppt hárblásaranum. „Nei, við græðum ekkert á því. Ég tók leikhlé um miðjan þriðja leikhluta þegar á sá í hvað stefndi og þá fengu menn hárblásarann. Það breyttist ekkert við það. Ég veit ekki hver nýtingin var þegar upp var staðið en við vorum ekkert að hitta fyrir utan og það var sama hvort við fengum góð færi eða ekki eins góð, við gátum ekki skorað.“

Þórsarar lentu í villuvandræðum og bæði Robert Diggs og Darrell Flake luku leik snemma með fimm villur. Það munaði um þá á lokakaflanum en þegar Þórsarar voru komnir í erfiða stöðu.

„Við erum ekki einu sinni í aðstöðu til að benda á villur hjá dómurum eða hvað margar körfur hjá Njarðvík skoppuðu ofaní. Þetta er bara lukka sem þeir skapa sér á meðan við vorum að gera nánast allt til að tapa leiknum,“ segir Þórs-þjálfarinn og bætir við að hann sé ekki ánægður með hvar liðið er statt í dag.

„Við erum ekkert betri en úrslitin í kvöld sýna. Við erum ekki með eins gott lið akkúrat núna og í fyrra og það er ágætt að við finnum það og fólkið í kringum okkur sjái það. Við höldum meirihlutanum af kjarnanum en þetta er samt nýtt lið og við verðum alltaf bornir saman við síðasta vetur sem gæti verið okkar versti óvinur. við þurfum bara að byrja upp á nýtt.“

Fyrri greinSkelfilegur lokakafli Þórsara
Næsta greinJón Daði lék vel í tapleik