„Við gáfum þeim alvöru leik”

Knattspyrnufélag Rangæinga féll úr leik í Valitorbikar karla eftir 1-4 tap á Helluvelli gegn 1. deildarliði HK í kvöld.

HK-ingar voru sterkari aðilinn í leiknum en Rangæingar gerðu sitt besta til að halda leikskipulaginu og létu ekki tvö mörk HK snemma leiks hafa áhrif á sig. Gestirnir bættu við þriðja markinu fyrir hálfleik og staðan var 3-0 í leikhléinu.

Boban Jovic var ferskur í liði KFR í sínum fyrsta leik í sumar og hann minnkaði muninn í síðari hálfleik. Reynir Björgvinsson stakk sér þá upp vinstri kantinn og átti góða fyrirgjöf þar sem Boban var á fjærstöng og skallaði í netið. Nær komust Rangæingar ekki og HK bætti við fjórða markinu áður en flautað var af.

„Við gáfum þeim alvöru leik og ég held að við getum verið sáttir þó að við höfum auðvitað viljað vinna leikinn. Þeir gerðu útaf við okkur í fyrri hálfleik með þremur góðum mörkum,” sagði Viktor Steingrímsson, aðstoðarþjálfari KFR, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„Strákarnir gerðu sitt besta og við blésum til knattspyrnuhátíðar fyrir yngri flokkana þetta var mjög góður dagur. Það voru rúmlega 100 manns á vellinum og bullandi stemmning og fyrst og fremst gaman fyrir okkur að taka á móti svona liði,” sagði Viktor.

Fyrri greinSelfoss áfram eftir bráðabana
Næsta grein„Jói má ekki borða lambalæri”