„Þetta voru ekki þau úrslit sem við höfðum hugsað okkur og nú verðum við að gefa allt í endasprettinn á mótinu,“ sagði Svavar Páll Pálsson, fyrirliði Hamars eftir tapið gegn ÍR í kvöld.
„ÍR-ingarnir voru búnir að undirbúa sig fyrir svæðisvörnina hjá okkur og þeir hittu vel fyrir utan í fyrri hálfleik. Þeir náðu þægilegu forskoti í 3. leikhluta en við gerðum smá áhlaup í lokin. Þá var pústið bara búið og þeir kláruðu leikinn,“ sagði Svavar Páll í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
„Þeir voru búnir að lesa sóknarleikinn hjá okkur og við vorum ekki nógu grimmir að keyra á þá og fá dóma. Það er ekki brotið á okkur ef við erum í einhverju moði inni í teig. Þetta var bara ekki okkar dagur,“ sagði Svavar ennfremur.
„Við getum miklu meira og það er leiðinlegt að geta ekki sýnt það þegar mikið liggur við. Við eigum erfiðan útileik gegn Snæfelli á sunnudag og þar spilum við fyrir lífi okkar. Það er núna eða aldrei og það verður allt gefið í þann leik,“ sagði Svavar að lokum.