Selfoss velgdi toppliði Vals heldur betur undir uggum þegar liðin mættust í Olísdeild kvenna í handbolta í Vallaskóla í kvöld. Eftir jafnan og skemmtilegan leik hafði Valur sigur, 22-27.
„Ég er hrikalega svekktur. Við spiluðum hörkuleik gegn besta liði landsins í dag ef miðað er við stigatöfluna og við hefðum vel getað unnið,“ sagði Örn Þrastarson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik. „Við spiluðum hrikalega góða vörn lengi vel en svo kom kafli þar sem við fórum aðeins að hika í sókninni og töpuðum mörgum boltum. Þetta var jafnt en féll með Val í dag og var stöngin út hjá okkur.“
Valur byrjaði betur en svo small vörnin saman hjá Selfyssingum sem tóku forystuna í kjölfarið og leiddu 13-12 í hálfleik. Selfoss hélt forskotinu fram í miðjan seinni hálfleikinn en þá kom slæmur kafli þar sem Valur skoraði sex mörk gegn einu og náði forystunni. Þrátt fyrir góða baráttu á lokakaflanum náði Selfoss ekki að svara fyrir sig og Valur fagnaði sigri.
Kristrún Steinþórsdóttir var markahæst Selfyssinga með 8 mörk. Hulda Dís Þrastardóttir skoraði 4, Harpa Sólveig Brynjarsdóttir 3/1, Ída Bjarklind Magnúsdóttir, Katla María Magnúsdóttir og Perla Ruth Albertsdóttir skoruðu allar 2 mörk og Arna Kristín Einarsdóttir 1.
Viviann Petersen var góð í marki Selfoss í fyrri hálfleik og varði 11/1 skot og Þórdís Erla Gunnarsdóttir átti frábæran lokakafla og varði 4 skot.