„Þetta var virkilega flottur leikur hjá okkur frá byrjun til enda. Öruggur og þægilegur sigur og virkilega gaman fyrir mig að fá að spreyta mig í kvöld.“
Þetta sagði Jón Daði Böðvarsson í samtali við sunnlenska.is eftir 2-0 sigur Íslands á Tyrklandi í undankeppni heimsmeistaramótsins í knattspyrnu á Laugardalsvellinum í kvöld.
Jón Daði hefur glímt við nárameiðsli að undanförnu og missti til að mynda af leiknum gegn Finnlandi síðastliðið fimmtudagskvöld.
„Ég var nýbúinn að ná mér af meiðslunum fyrir Finnaleikinn og var kannski 90% heill fyrir hann, þannig að við vorum ekkert að taka neinn óþarfa séns þá. Í dag var ég orðinn góður og spilaði 65 mínútur. Það var það klókasta í stöðunni og óþarfi að reyna eitthvað frekar á nárann,“ sagði Jón Daði sem var ánægður með spilamennsku íslenska liðsins.
„Við litum mjög vel út, sérstaklega í fyrri hálfleik þar sem við hefðum jafnvel getað skorað fleiri mörk. Við bjuggumst við erfiðari leik, Tyrkirnir eru með virkilega flotta einstaklinga í liðinu sínu en þeir voru ekki að finna sig í dag og ógnuðu okkur aldrei. Við gáfum þeim aldrei færi á því að komast almennilega inn í leikinn.“
Jón Daði hefur farið vel af stað í vetur með nýja liðinu sínu, Úlfunum í 1. deildinni á Englandi. Hann segir lífið á Englandi æðislegt.
„Mig hefur alltaf langað til þess að fara til Englands sem leikmaður og sá draumur rættist. Mér líður ótrúlega vel í þessu umhverfi, Englendingarnir eru skemmtilegir og láta manni líða virkilega vel. Á fótboltavellinum er ég að finna mig vel og sjálfstraustið er hátt uppi. Ég held að ég hafi aldrei spilað betur á mínum ferli.
Þetta er líkamlega erfið deild, örugglega ein sú erfiðasta í heiminum og leikjaálagið er mikið en þetta er eitthvað sem hentar mér og ég er í umhverfi sem ég get haldið áfram að bæta mig í sem leikmaður, ég vil alltaf bæta mig og komast lengra,“ sagði Jón Daði að lokum.