„Við mættum þeim af krafti“

„Við vorum ekki sáttir við vörnina í síðasta leik, gegn Tindastól, og lögðum áherslu á að laga hana í kvöld,“ sagði Ágúst Björgvinsson, þjálfari Hamars, eftir leikinn gegn KFÍ.

„Það var allt annað að sjá til liðsins í kvöld. Vörnin var mikið betri og við vorum að frákasta betur. Ég er fyrst og fremst ánægður með að við náum að halda þeim undir 70 stigum. KFÍ er búið að skora einna mest af liðunum í deildinni í vetur,“ sagði Ágúst í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„Við vorum alls ekki sáttir við vörnina í síðasta leik og teljum okkur vera miklu betri en við sýndum þar. Það var meiri kraftur í okkur í kvöld. KFÍ vill hlaupa en við mættum þeim af krafti og stjórnuðum hraðanum á leiknum,“ sagði Ágúst en með sigrinum fór Hamar upp í 4. sæti deildarinnar að loknum sjö umferðum.

„Deildin byrjar ótrúlega skemmtilega. Það eru allir að vinna alla og þetta er jafnara en oft áður. Við höfum byrjað virkilega vel og betur en í fyrra. Það er eitt af okkar aðalmarkmiðum, að gera betur en í fyrra,“ sagði Ágúst að lokum.

Fyrri greinEyþór Jóvins: Hættur við að auglýsa framboðið
Næsta greinStöðvun hefur slæm áhrif á bygginguna