Selfyssingurinn Jón Daði Böðvarsson hefur hafið æfingar með U19 ára liði AGF í Árósum og segjast forsvarmenn liðsins vænta mikils af honum.
Á vef AGF er frétt af komu Jóns til félagsins þar sem kemur fram að hann hafi staðist læknisskoðun hjá félaginu.
„Við væntum mikils af Jóni. Hann er spennandi leikmaður og sýndi góð tilþrif þegar hann var til reynslu hjá okkur í vetur. Við skoðuðum hann líka í leikjum með U19 ára landsliði Íslands þar sem hann lét mikið til sín taka. Jón hefur hraða fætur, er tæknilega góður og leggur sig fram í leikjum,” segir Brian Steen Nielsen, yfirmaður íþróttamála, á vef AGF.
„Við náðum samkomulagi við Selfoss um að fá Jón að láni fram á vorið en auðvitað vonum við að það þróist yfir í lengri dvöl hjá AGF,” sagði Nielsen ennfremur og bætir við að Jón muni æfa með U19 ára liði AGF auk þess að æfa stundum með meistaraflokki félagsins.
Í fréttinni er einnig spjallað við Jón sem segir markmið sitt að fá samning við AGF eftir að lánssamningurinn rennur út.