Selfyssingar töpuðu sínum fyrsta leik í 1. deild karla í handbolta í kvöld, þegar Stjarnan sigraði þá 23-26 í íþróttahúsinu á Selfossi.
„Við vorum bara arfaslakir,“ sagði Arnar Gunnarsson, þjálfari Selfoss eftir leikinn. „Margir tapaðir boltar og skotnýtingin örugglega hörmuleg. Til dæmis skora útispilararnir okkar ekki mark fyrr en eftir 40 mínútur og það er bara ekkert hægt að vinna leik þannig.“
Stjarnan náði fljótt undirtökunum í leiknum og var komin með ágætt forskot á heimamenn þegar lítið var eftir að fyrri hálfleiknum. Þá náði Selfoss ágætum kafla og minnkaði muninn í eitt mark fyrir leikhlé. Staðan í leikhléi var 11-12.
Strax í upphafi seinni hálfleiks náðu Stjörnumenn að slíta Selfyssinga frá sér og héldu fimm til sex marka forystu án þess að Selfyssingar næðu að klóra í bakann.
Þegar tæpar tíu mínútur voru eftir af leiknum kom góður kafli heimamanna og þeir náðu að minnka muninn. Tíminn var hins vegar ekki að vinna með þeim og þeir voru oft sjálfum sér verstir -gerðu mörg mistök.
Stjarnan tryggði sér því tvö stig á Selfossi í kvöld, unnu leikinn 23-26.
„Við vorum bara á hælunum, fannst mér, aðallega sóknarlega,“ sagði Arnar sem var ekki viss hver ástæðan væri fyrir slakri spilamennsku sinna manna. „Kannski voru menn ekki að höndla það að vera í toppsæti, ég veit það ekki. Það er eitthvað sem við þurfum að vinna í og ræða sem hópur.“
Einar Sverrisson var markahæstur Selfyssinga með níu mörk, Einar Pétur Pétursson skoraði sex og Ómar Helgason, Magnús Már Magnúson og Atli Kristinsson skoruðu tvö mörk hver.
Helgi Hlynsson varði níu skot og Sverrir Andrésson varði fimm.