Benedikt Guðmundsson, þjálfari Þórs, var ekki ánægður með leik sinna manna sem sigruðu FSu í 1. deild karla í körfubolta í kvöld, 87-100.
„Ég var ekki ánægður þegar ég labbaði hérna út úr salnum, mér fannst þetta ekkert sérstakt. Það vantaði algjört hjarta í vörnina og menn voru bara alveg týndir. Ég veit eiginlega ekki hvernig ég á að lýsa því. Þetta var allt í lagi sóknarlega en við vorum algjörlega eins og geimverur sem voru að stíga á jörðina í fyrsta skipti í vörninni,“ sagði Benedikt í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
Þórsarar eru í frábærri stöðu á toppi deildarinnar og hafa ekki tapað leik. Þegar sex umferðir eru eftir dugar liðinu að öllum líkindum sigur í tveimur leikjum til að tryggja sér sæti í úrvalsdeildinni.
„Þetta verður líklegra og líklegra með hverjum leiknum en við erum ekkert að líta fyrir aftan okkur og spá í hvað hin liðin eru að gera. Við ætlum ekki að gera bara það sem er nóg til að vinna deildina. Við erum ekki að stóla á önnur lið heldur ætlum við okkar að vinna alla átján leikina, það er okkar markmið,“ sagði Benedikt einnig.