FSu tapaði 81-91 þegar liðið tók á móti ÍR í 2. umferð Domino's-deildar karla í körfubolta í kvöld. FSu hefur því tapað fyrstu tveimur leikjum sínum í deildinni.
„Við náðum nokkurra stiga forystu nokkrum sinnum í leiknum en svo misstum við forskotið jafn harðan niður í næstu tveimur sóknum á eftir. Við vorum ekki sjálfum okkur líkir. Okkar aðalsmerki er að spila hraðan bolta en í kvöld leyfðum við ÍR-ingunum að hægja allt of mikið á okkur,“ sagði Chris Caird, fyrirliði FSu, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
Úrslitin réðust í fjórða leikhluta og Chris hafði nokkuð augljósa leikgreiningu á reiðum höndum þegar hann var spurður hvað fór úrskeiðis þar. „Við stóðum okkur ekki nógu vel sóknarlega og leyfðum þeim að skora auðveldar körfur. Við vorum slakir bæði í vörn og sókn.“
FSu hefur nú tapað fyrstu tveimur leikjum sínum í deildinni eftir að hafa náð góðum úrslitum og litið vel út á undirbúningstímabilinu, þar sem liðið skoraði grimmt og vann sannfærandi sigra.
„Já, liðið leit vel út á undirbúningstímabilinu en svo fáum við blauta tusku í andlitið í fyrstu tveimur leikjum deildarinnar. Ég og fleiri í liðinu höfum verið í þessari stöðu áður, að þurfa að bíða eftir fyrsta sigurleiknum. Ég sagði við strákana eftir leik að við þyrftum að muna hvernig sigurtilfinningin væri og keyra okkur aftur í gang. Að mínu mati erum við með eitt hæfileikaríkasta liðið í deildinni en við verðum að sýna það inni á vellinum,“ sagði Chris ennfremur.
Hörku barátta í fyrri hálfleik
Fyrsti leikhlutinn var hnífjafn en undir lok hans skriðu ÍR-ingar framúr og leiddu 15-18 eftir tíu mínútna leik.
FSu hóf 2. leikhluta á 13-3 áhlaupi og náði sjö stiga forystu, 28-21. Þetta var stærsta forskot FSu í leiknum og ÍR-ingar voru fljótir að vinna það niður. Síðasta karfa fyrri hálfleiks kom frá gestunum sem leiddu 36-37 í leikhléi.
Heimamenn voru af seinir að mæta til leiks í síðari hálfleik því gestirnir náðu sex stiga forskoti á fyrstu tveimur mínútunum. Þá kom góður kafli hjá FSu þar sem Chris Caird sökkti meðal annars tveimur þristum og jafnaði 53-53 þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir af 3. leikhluta.
Tvær góðar körfur frá Maciej Klimaszewski undir lokin og þristur frá Christopher Anderson tryggðu FSu tvegga stiga forskot þegar 3. leikhluti var flautaður af, 65-63.
Allt gekk á afturfótunum í síðasta fjórðungnum
ÍR hafði frumkvæðið í 4. leikhlutanum en FSu eygði von þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir og Anderson minnkaði muninn í 74-78. Þar að auki voru ÍR-ingar Kanalausir, eftir að besti maður þeirra, Jonathan Mitchell, hafði farið meiddur af velli tveimur mínútum fyrr.
Á lokakaflanum fell hins vegar allt með ÍR-ingum. Varnarleikurinn var slakur hjá FSu og gestirnir hittu vel úr sínum skotum á meðan heimamenn reyndu að skjóta sig inn í leikinn með misheppnuðum þriggja stiga tilraunum.
Að lokum skildu tíu stig liðin að, 81-91, og FSu enn án sigurs í deildinni.
Tölfræði FSu: Cristopher Caird 24 stig/7 fráköst, Christopher Anderson 20 stig/9 fráköst (22 í framlag), Maciej Klimaszewski 10 stig/4 fráköst, Hlynur Hreinsson 10 stig/5 stoðsendingar, Ari Gylfason 8 stig/6 stoðsendingar, Birkir Víðisson 4 stig, Gunnar Ingi Harðarson 3 stig/7 fráköst, Arnþór Tryggvason 2 stig.
Tölfræði ÍR: Jonathan Mitchell 23 stig/13 fráköst (29 í framlag), Oddur Rúnar Kristjánsson 20 stig, Sveinbjörn Claessen 17 stig/5 stoðsendingar, Vilhjálmur Theodór Jónsson 14 stig.