Selfoss tapaði þriðja leiknum í röð í Inkasso-deildinni í knattspyrnu í kvöld þegar Leiknir R. kom í heimsókn á JÁVERK-völlinn. Lokatölur urðu 0-2.
„Við vorum óheppnir, þeir fengu ódýrt víti í byrjun en eftir það vorum við betri og mér fannst við heilt yfir stýra leiknum. Við vorum aular að fá á okkur mark í lokin en það skipti kannski ekki öllu máli, við vorum framarlega að reyna að sækja jöfnunarmarkið. Við erum að skjóta í rammann og klúðra góðum færum. Þetta er saga sumarsins, stundum dettur þetta með manni og stundum ekki, en við vorum mjög óheppnir í kvöld,“ sagði Þorsteinn Daníel Þorsteinsson, leikmaður Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
Selfyssingar lentu undir á 8. mínútu leiksins þegar Leiknismenn fengu vítaspyrnu. Spyrnan var líklega dæmd á Giordano Pantano fyrir óljósar sakir. Eftir það tóku Selfyssingar leikinn gjörsamlega yfir og voru óheppnir að skora ekki, áttu skot bæði í stöng og slá auk þess sem Eyjólfur Tómasson markvörður gestanna átti stórleik.
Staðan var 0-1 í leikhléi og Selfyssingar settu boltann tvívegist í rammann á Leiknismarkinu strax á upphafsmínútum seinni hálfleiks. Þetta kvöld var svo sannarlega „stöngin út“ hjá Selfyssingum og til að bæta gráu ofan á svart fengu Gunnar Borgþórsson, þjálfari og Elías Einarsson, markmannsþjálfari báðir brottvísun á 57. mínútu fyrir gagnrýni á dómgæsluna.
Síðasti hálftíminn var tíðindalítill og mest bar á dómaranum sem var mjög áberandi í ákvarðanatökum sínum og hafði engin tök á leiknum. Selfyssingar sóttu stíft en án árangur og í uppbótartímanum skoruðu Leiknismenn auðvelt mark úr skyndisókn eftir að Selfyssingar höfðu fjölmennt í sóknina.
Selfyssingar sitja í 9. sæti deildarinnar með 21 stig eftir sautján umferðir.