Lítilsháttar tap var á rekstri Golfklúbbs Þorlákshafnar á síðasta ári, að því er fram kom á aðalfundi klúbbsins sem var haldinn þriðjudaginn 26. janúar síðastliðinn.
Tapið skýrist fyrst og fremst vegna dræmrar aðsóknar á golfvöllinn síðastliðið vor, en Þorlákshafnarvöllur hefur undanfarin ár komið vel undan vetri sem hefur laðað að fjölda kylfinga af Höfuðborgarsvæðinu á vorin. Slæm tíð síðasta vor kom illa niður á vellinum og var hann ekki tilbúinn fyrr en um svipað leyti og golfvellirnir á Höfuðborgarsvæðinu.
Aðalfundurinn var með hefðbundnu sniði, Guðmundur Baldursson formaður GÞ fór yfir skýrslu stjórnar og ársreikning klúbbsins og mikil ánægja var á meðal fundargesta með bæði skýrsluna og ársreikninginn þrátt fyrir rúmlega 100 þúsund króna tap eftir afskriftir og fjármagnsliði.
Samþykkt var á aðalfundinum að halda ársgjöldum klúbbsins óbreyttum, en þau eru þau lægstu á 18 holu golfvelli á Íslandi. Þá hefur lágt nýliðagjald vakið sérstaka athygli, en nýliðar greiða aðeins 46 þúsund krónur fyrir fyrstu tvö árin í klúbbnum. Með þessum lágu gjöldum er vonast til að fá fleiri meðlimi í klúbbinn.
Aðeins ein breyting var á stjórn klúbbsins, en Sigríður Ingvarsdóttir gaf ekki kost á sér í stjórn og var Magnús Joachim Guðmundsson kosinn í hennar stað, en hann hafði áður verið í varastjórn. Í stað hans í varastjórn kom Ásta Júlía Jónsdóttir. Stjórnina skipa því Guðmundur Baldursson, formaður, Magnús Ingvason, varaformaður, Ingvar Jónsson, ritari, Marteinn Ó. Skarphéðinsson, gjaldkeri, og Magnús Joachim Guðmundsson meðstjórnandi. Varamenn í stjórn eru þau Ásta Júlía Jónsdóttir og Óskar Logi Sigurðsson. Þá eru þau Jón H. Sigmundsson, Óskar Gíslason, Ægir Hafberg, Ásta Júlía Jónsdóttir og Ingvar Jónsson formenn helstu nefnda klúbbsins.
Edwin Roald Rögnvaldsson, golfvallarhönnuður var gestur fundarins, en hann hefur stjórnað þeim breytingum sem eru hafnar og fyrirhugaðar eru á golfvellinum á næstu árum. Hann fór m.a. yfir hönnun og skipulagningu nýrrar par 3 brautar, en með henni lýkur fyrsta áfanga breytinga á Þorláksvelli. Unnið verður áfram að þeim framkvæmdum sem í gangi eru vegna aflagningar þriggja brauta sem næst eru sjávarkambinum. Þegar hinar nýju þrjár brautir verða komnar í gagnið, væntanlega sumarið 2017, þá mun Þorláksvöllur verða meðal allra bestu golfvalla landsins.
Það er því óhætt að segja að framundan séu spennandi tímar hjá Golfklúbbi Þorlákshafnar og vonast er til að kylfingar klúbbsins sem og aðrir fái gott og skemmtilegt golfsumar.