Viðar með tvö mörk í sigri Selfoss

Selfyssingar lögðu ÍR að velli í 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Lokatölur á Selfossvelli voru 2-1 eftir kaflaskiptan leik.

Selfyssingar voru sterkari í fyrri hálfleik og áttu ÍR-ingar oft í vök að verjast við mark sitt. Gestirnir áttu þó nokkarar ágætar sóknir og hefðu getað komist yfir á 10. mínútu þegar þeir fengu tvö dauðafæri í sömu sókninni. Skömmu áður hafði Viðar Örn Kjartansson sloppið innfyrir ÍR-vörnina og látið verja frá sér og það var ekki í síðasta skipti í leiknum.

Viðar slapp þrívegis innfyrir vörn ÍR áður en hann kom Selfoss yfir á 35. mínútu. Ibrahima Ndiaye átti þá frábæra sendingu innfyrir þar sem Viðar var á auðum sjó og kláraði færið vel. Viðar var svo nálægt því að bæta öðru marki við á lokamínútu fyrri hálfleiks en skot hans fór framhjá.

Fyrstu mínútur seinni hálfleiks voru rólegar fyrir utan gott færi sem Ibrahima misnotaði á klaufalegan hátt. Selfyssingar voru meira með boltann en færin voru fá þangað til að Viðar tók á rás með boltann inn í teig á 66. mínútu og lagði hann snyrtilega í netið, framhjá markverði ÍR.

Þarna héldu margir að leikurinn væri búinn en ÍR-ingar voru ekki á sama máli og tveimur mínútum síðar minnkaði Brynjar Benediktsson Olgeirssonar frá Nefsholti muninn þegar hann fékk sendingu utan af hægri kanti og lagði boltann í tómt markið.

Strax í næstu sókn voru ÍR-ingar síðan hársbreidd frá því að jafna metin er þeir áttu þrumuskot fyrir utan teig sem Jóhann Ólafur varði mjög vel í þverslánna og þaðan úr hættu.

Stuttu seinna reyndu ÍR-ingar svipað skot en aftur varði Jóhann frábærlega og skyndilega voru ÍR-ingar komnir í stórsókn. Pressa ÍR hélt áfram næstu mínútur en færin létu á sér standa.

Síðustu tíu mínúturnar áttu Selfyssingar nokkrar álitlegar sóknir og fengu fjögur dauðafæri en enginn þó betra en Jón Daði Böðvarsson sem skallaði framhjá tómu marki á 90. mínútu eftir skyndisókn og góða fyrirgjöf Joe Tillen.

Selfyssingar fögnuðu vel í leikslok enda léttir fyrir þá að klára leikinn þar sem ÍR-ingar þjörmuðu vel að þeim á lokakaflanum.

Selfoss er í 2. sæti deildarinnar með 22 stig og sjö stiga forskot á Þróttara í 3. sæti.

Fyrri grein„Misstum hausinn í seinni hálfleik“
Næsta greinEldað á Fimmvörðuhálsi