Selfyssingar hafa sex stiga forskot á Hauka í 2. sæti 1. deildar karla í knattspyrnu eftir 1-2 sigur á KA á útivelli í kvöld.
Aðstæður voru hinar bestu á Akureyri, logn og blíða og 12°C hiti. Þrátt fyrir það voru upphafsmínútur leiksins bragðdaufar en Selfyssingar voru meira með boltann án þess að skapa sér teljandi færi.
Jón Daði Böðvarsson kom Selfyssingum yfir á 33. mínútu þegar hann fékk góða sendingu innfyrir flata vörn KA. Jón virtist rangstæður en honum var slétt sama um það, kláraði færið vel og flaggið fór ekki á loft. Staðan var 0-1 í hálfleik.
Selfyssingar voru ákveðnari á upphafsmínútum seinni hálfleiks og þegar tuttugu mínútur voru liðnar skoraði Viðar Örn Kjartansson glæsilegt mark. Ættaður af alþekktu rakarakyni átti Viðar auðvelt með að munda skærin fyrir utan teig áður en hann smellti boltanum í markhornið.
Eftir þetta sigldu Selfyssingar öruggum sigri í höfn og það var ekki fyrr en í uppbótartíma að KA menn minnkuðu muninn og reyndist það vera nánast síðasta spyrna leiksins.
Haukar lögðu ÍA í kvöld og munurinn milli Selfoss og Hauka er áfram sex stig. BÍ/Bolungarvík á leik til góða gegn HK og getur minnkað muninn í Selfoss aftur í fjögur stig.