Viðar Örn Kjartansson, framherji Valerenga, er við það að ganga til liðs við Jiangsu Guoxin-Sainty í kínversku úrvalsdeildinni.
Fótbolti.net greinir frá þessu eftir að hafa náð tali af Ólafi Garðarssyni umboðsmanni Viðars þegar hann var staddur á Keflavíkurflugvelli í morgun að hefja ferðalag sitt til Kína.
Ólafur staðfesti að Valerenga og Guoxin-Sainty hafi náð saman og að samningaviðræður séu langt komnar með persónuleg kjör. Viðar mun nú fara til Kína til að klára samninga og fara í læknisskoðun.
,,Það er gríðarlegur uppgangur í fótboltanum í Kína og 20-40 þúsund áhorfendur á hverjum leik. Markahæsti leikmaðurinn í norsku úrvalsdeildinni á þarsíðasta tímabili (Abderrazak Hamdallah) var keyptur til Kína og endaði líka markahæstur þar á síðasta tímabili. Þá eru tveir eða þrír sænskir landsliðsmenn að spila í Kína,“ sagði Ólafur.
Fótbolti.net greinir frá því að ensk, þýsk og hollensk félög hafa sýnt Viðari áhuga undanfarna mánuði en hann sló í gegn á sínu fyrsta tímabili með Valerenga og var langmarkahæstur í norsku úrvalsdeildinni. Ólafur segir að hann sé að fá mjög góðan samning í Kína.
Heimildir Fóbolta.net herma að framheriar í kínversku deildinni séu að fá gífurlega há laun en samningar þeirra jafnast á við góða samninga í ensku úrvalsdeildinni.
Knattspyrnudeild Selfoss mun fá tugi milljóna í sínar hendur þegar Viðar skrifar undir hjá kínverska félaginu. Þetta hefur Fótbolti.net eftir áreiðanlegum heimildum.
Bæði Selfoss og Fylkir fá prósentu af kaupverðinu sem og samstöðubætur. Samstöðubætur eru 5% af kaupverðinu en þær skiptast á milli þeirra félaga sem leikmaðurinn var hjá á aldrinum 12-23 ára. Viðar ólst upp hjá Selfyssingum en hann var 23 ára gamall hjá Fylki. Þá var Viðar í eitt ár hjá ÍBV og því geta Eyjamenn fengið hluta af samstöðubótunum.