Selfyssingar hafa endurheimt framherjann Viðar Örn Kjartansson frá ÍBV.
Viðar er 20 ára gamall og lék síðast með Selfoss sumarið 2008 áður en hann gekk í raðir Eyjamanna. Hann lék 24 leiki í ÍBV treyjunni í fyrra og skoraði 7 mörk fyrir liðið. Í síðustu umferð Íslandsmótsins sleit hann krossbönd og hefur ekkert leikið síðan en batinn hefur verið framar vonum.
„Ég byrjaði að æfa fyrir mánuði síðan og er aðeins farinn að sparka núna. Þetta lítur mjög vel út og ég ætti að vera kominn í leikform eftir fjórar vikur,“ sagði Viðar Örn í samtali við sunnlenska.is.
Viðar var samningsbundinn ÍBV en Selfyssingar fengu leyfi Eyjamanna til að ræða við hann og bjóða honum samning. „Mér finnst frábært að vera kominn aftur á Selfoss. Ég þekki hópinn vel, þjálfarinn er mjög spennandi og umgjörðin frábær hjá félaginu,“ sagði Viðar að lokum. „Ég er staðráðinn í að festa mig í sessi í hópnum og hjálpa liðinu að gera góða hluti í deildinni.“