Selfyssingurinn Viðar Örn Kjartansson skoraði sigurmark Jiangsu Guoxin-Sainty sem lagði Shanghai Greenland Shenhua 3-2 í kínversku ofurdeildinni.
Viðar kom inn af varamannabekknum á 63. mínútu leiksins og skoraði sigurmarkið með skalla tæpum tíu mínútum síðar eftir góða sendingu frá Sergio Escudero.
Það reyndist síðasta mark leiksins og eftir leikinn er Jiangsu Guoxin-Sainty í 6 sæti deildarinnar með 22 stig.
Viðar er í hópi tíu markahæstu leikmanna ofurdeildarinnar í alþýðulýðveldinu að loknum fimmtán leikjum, en hann hefur skorað sex mörk.
Ástralinn Tim Cahill, sem áður lék með Everton, skoraði eitt marka Shanghai Greenland Shenhua í leiknum.