Selfyssingurinn Viðar Örn Kjartansson hefur gengið til liðs við Malmö FF í Svíþjóð eftir ársdvöl í Kína hjá Jiangsu Suning.
Viðar var kynntur til leiks hjá Malmö á blaðamannafundi í dag eftir að hafa undirgengist læknisskoðun hjá liðinu í morgun. Hann gerir þriggja ára samning við félagið og mun leika í treyju númer 24.
„Malmö er einn stærsti klúbburinn í Skandinavíu og hefur notið velgengni í Evrópu á undanförnum árum. Það voru fleiri lið mjög áhugasöm um að fá mig en ég hafði strax mikinn áhuga á Malmö þegar liðið var nefnt til sögunnar,“ sagði Viðar á blaðamannafundinum.
Liðsfélagi hans í landsliðinu, Kári Árnason, leikur með félaginu og segir Viðar að hann hafi talað mjög vel um félagið og borgina. „Liðið er með frábæra aðdáendur og góða leikmenn og það vakti strax áhuga minn.“
„Mér líkaði ekki lífið utanvallar í Kína og langaði að koma aftur til Evrópu. Ég trú á því að ég hafi meiri möguleika á að komast í byrjunarliðið hjá landsliðinu ef ég er að spila hérna.“
Keppni í efstu deild í Svíþjóð, Allsvenskan, hefst þann 2. apríl næstkomandi og lýkur í nóvember. Malmö varð í 5. sæti deildarinnar á síðasta keppnistímabili en hafði áður orðið sænskur meistari tvö ár í röð. Liðið lék í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í vetur.
Heimavöllur liðsins er Swedbank Stadion í Malmö sem rúmar 24.000 áhorfendur og gælunafn liðsins er „þeir bláu“ eða Himinbláminn. Dáðasti sonur félagsins er án efa Zlatan Ibrahimovic.