Viðar Örn Kjartansson sló gamalt félagsmet þegar hann skoraði mark fyrir Maccabi Tel Aviv, þrettán sekúndum eftir að flautað var til leiks gegn Maccabi Haifa í gærkvöldi.
Gamla metið átti Moshe Asis sem skoraði eftir sautján sekúndur í 4-2 sigri Maccabi á Hapoel Sderot árið 1962.
Viðar lét ekki þar við sitja heldur bætti við öðru marki á 54. mínútu leiksins en Maccabi Tel Aviv vann leikinn á endanum 1-3 og situr í toppsæti HaAl-deildarinnar ásamt Hapoel Beer Sheva. Bæði lið eru með 38 stig eftir 18 umferðir, en Hapoel hefur betra markahlutfall.
„Mér líður vel á þessum magnaða velli og það hvetur mig kannski enn frekar,“ segir Viðar, sem hefur verið duglegur að skora gegn Maccabi Haifa á útivelli. „Þetta er erfiður andstæðingur og alltaf erfiðir leikir, en líklega er þetta tilviljun að ég skori svona oft gegn þeim. Við vildum halda okkur í toppbaráttunni og hefur gengið vel í síðustu leikjum. Ef við höldum áfram svona þá verður toppsætið okkar,“ sagði Viðar í viðtali við heimasíðu félagsins eftir leik.