Selfyssingurinn Viðar Örn Kjartansson heldur til Osló á morgun þar sem hann mun æfa í eina viku með norska úrvalsdeildarliðinu Vålerenga.
Viðar er eftirsóttur erlendis en samkvæmt heimildum sunnlenska.is hafa fimm önnur félög falast eftir því að fá kappann til reynslu. Hann mun því fara víðar í kjölfar heimsóknar sinnar til Vålerenga, sem er í 11. sæti í Tippeligaen. Til stóð að hann færi fyrst til Brann í Bergen en þeirri heimsókn hefur verið frestað.
Selfyssingurinn fór á kostum með Fylki í sumar og var heilt yfir einn af bestu leikmönnum Pepsi-deildarinnar. Hann skoraði 13 mörk í deildinni og var markahæstur ásamt tveimur öðrum leikmönnum.