Gunnar Gunnarsson, þjálfari Selfoss og Örn Þrastarson, þjálfari Mílunnar, voru sammála um að leikur liðanna í kvöld hafi verið hin besta skemmtun. Selfoss sigraði 28-23.
Þetta var fyrsta viðureign liðanna og í fyrsta sinn sem meistaraflokkar tveggja félaga frá Selfossi leiða saman hesta sína í opinberum keppnisleik.
„Þetta var bara skemmtileg upplifun fyrir handboltann á Suðurlandi, næstum því fullt hús af fólki. Þessir strákar í kunna alveg handbolta og þeir sýndu okkur það hérna í 40 mínútur. Menn hafa fengið mjög gott handboltauppeldi hérna á Selfossi og ég held að það sé einsdæmi það sem við sjáum hér í kvöld að það er verið að stilla upp tveimur handboltaliðum þar sem nánast allir eru uppaldir Sunnlendingar,“ sagði Gunnar Selfossþjálfari og bætti við að leikurinn hefði verið erfiður fyrir sína menn.
„Mílumenn voru helvíti seigir. En þegar fór að líða inn í seinni hálfleikinn þá fór þetta að snúast um hvort menn æfa tvisvar í viku eða sex sinnum í viku. Það vantaði alla hreyfingu hjá okkur í sókninni í fyrri hálfleik og menn voru að fara beint á blokkina og skjóta trekk í trekk í hávörnina þeirra við mikla kátínu áhorfenda. En við náðum meiri hreyfingu í seinni hálfleik og þéttum líka vörnina betur,“ sagði Gunnar laufléttur að lokum.
Örn Míluþjálfari var brattur þrátt fyrir tapið og stoltur af sínum mönnum:
„Þetta var þrælskemmtilegur leikur, fullt af fólki, vel tekist á og bara stuð. Við gáfum eftir í seinni hálfleik og líklega er hægt að skrifa það á formið. Þeir fóru að hitta skeytin inn og Basti lokaði markinu og við áttum engin svör við því,“ sagði Örn, en fyrir leikinn hafði Atli Kristinsson lýst því yfir að Mílumenn væru í betra formi en Selfyssingar. Selfossliðið svaraði því inni á vellinum í kvöld.
„Þetta var auðvitað sálfræðistríð fyrir leik og við bundum okkar vonir við það. Það gekk ekki nógu vel undir lokin í kvöld en við héngum yfir í hálfleik og það var gaman,“ sagði Örn og bætti við að hann væri ánægður með það hvernig Mílan kæmi inn í mótið en liðið er nýliði í 1. deildinni.
„Þetta fer bara vel af stað hjá okkur. Við höfum sjaldan stillt upp okkar allra sterkasta hóp, það er mikil rótering á mannskap en við höfum ekki lent í neinum hrakförum ennþá í úrslitum þannig að þetta lítur bara vel út og er ennþá skemmtilegt,“ sagði Örn að lokum.