Karlalið Selfoss í handbolta mætir liði RD Riko Ribnica frá Slóveníu í 2. umferð Evrópukeppni félagsliða. Fyrri leikurinn fer fram út í Slóveníu á morgun, laugardag kl. 17:00 að íslenskum tíma.
Liðið hélt út til Slóveníu í gær og gistir í höfuðborginni Ljubljana, en Ribnica er einungis í um 40 km fjarlægð frá höfuðborginni. Stemmingin er góð innan hópsins og eru um fimmtán stuðningsmenn með í för.
Selfoss.net náði tali af Patreki Jóhannessyni, þjálfara, í gær, þegar liðið lenti í Ljubljana og spurði hann aðeins um möguleika liðsins gegn Slóvenunum.
„Það eru allir klárir í leikinn, ég er bjartsýnn þrátt fyrir að ég hafi ekki verið með fullt lið í síðustu viku vegna landsliðsæfinga. RD Ribnica er með mjög gott lið sem vann til að mynda stórlið Celje í deildinni um daginn. Þeir spila góðan handbolta og eru tæknilega sterkir eins og flest lið frá Slóveníu og landslið Slóveníu. Við þurfum að spila agaðan sóknarleik og vera snöggir að komast í vörn því þeir eru mjög sterkir í hröðum upphlaupum. Fyrri hálfleikur er spilaður í Slóveníu svo það er mikilvægt að vera klárir í þessar 60 mínútur og svo klárast þetta einvígi heima á Selfossi um næstu helgi. Við ætlum að gefa allt í þetta dæmi,“ segir Patrekur
Leikurinn verður að öllum líkindum sýndur á SelfossTV en unnið er að því að geta sýnt leikinn í beinni. Fylgist með á facebook síðu Selfoss handbolta fyrir nánari upplýsingar.